STÓRIÐJA Á NORÐURLANDI OG FLUTNINGAR Á SJÓ OG LANDI

 

 

Páll Hermannsson skrifar um strandsiglingar í Morgunblaðið 23. Desember 2006: "Þessar siglingar munu hafa mun róttækari áhrifa á afkomu landsbyggðarinnar..."

 

UNDANFARIÐ hefur verið áberandi umræða um samgöngur innanlands, með höfuðáherslu á annars vegar uppbyggingu vegakerfisins og þá ríkisstyrkta strandflutninga.

Á fyrrihluta síðustu aldar gegndu strandferðir Skipaútgerðar ríkisins og annarra mikilvægu hlutverki, fyrst og fremst í fólksflutningum, með ströndinni, þegar þörf var á árstíðabundnum flutningum milli heimabyggða og verstöðva. Með bættu vegakerfi urðu fólksflutningar með áætlunarbílum og einkabílum yfir sumarið vinsælli en skipsferðir og með reglubundnu flugi innanlands var ekki lengur þörf fyrir þessa flutninga. Ríkisskip flutti alla jafna vöru milli hafna, en fram undir síðustu áratugi aldarinnar var útflutningur, einkum sjávarafurða beint frá framleiðsluhöfnum á markaði erlendis. Sama átti við um megin- innflutningsþarfir landsbyggðarinnar vegna landbúnaðar og byggingarframkvæmda; skip komu að utan og losuðu á flestum sæmilega skipsfærum höfnum.

Síðustu 20 árin hefur mismunandi stór hluti slíkra flutninga farið í gáma og verið umskipað í Reykjavík þar sem áætlunarskipin fóru beint frá höfuðborgarsvæðinu til útlanda. Með miklu minni landbúnaði hefur flutningsþörf til og frá landsbyggðinni með skipum minnkað. Með hagræðingu í sjávarútvegi eru ódýrari afurðir fluttar beint úr frystigeymslum og vinnsluskipum á landsbyggðinni til erlendra markaða í frystiskipum.

Áður var umtalsverð neysluvara flutt beint á strönd að utan, en þar sem verslunin er komin á færri hendur eru vörur fluttar með tíðum sendingum með bílum frá vörumiðstöðvum í Reykjavík til verslananna um allt land. Öryggi landflutninga er slíkt að sárasjaldan falla niður ferðir og seinkanir eru fátíðar. Rými í flutningabílunum á bakaleið er oft notað til að flytja vörur til útflutnings um vöruafgreiðslur skipafélaganna í Reykjavík.

Hlutur innanlandsflutninga í strandferðum var rýr, þó reynt væri að flytja gosdrykki og steinull með skipum. Samkvæmt fréttum eru núna flutt árlega 2500 vagnhlöss frá Steinullarverksmiðjunni til bygginga um land allt. 

Ljóst er að kostnaður við landflutninga er umtalsverður, reiknað er með að hver ekinn km með 44 tonna bíl kosti 172 kr. Þá tekur tíma að koma vöru til útskipunar um Reykjavík.

Með tilkomu stóriðju á Austurlandi hafa bæði stóru skipafélögin, Samskip og Eimskip, boðið upp á viðkomur millilandaskipa sinna í höfnum Fjarðabyggðar. Það þýðir að vara þangað er komin á svipuðum tíma og tæki að aka frá Reykjavík eða jafnvel fyrr. Verðlagning í sjóflutningum, sérstaklega í tvíkeppni, er alfarið skipafélaganna en það gefur auga leið að kostnaður ætti að vera lægri. Þá er minni mengun og minnkuð slysahætta.

Þá er enn mikilvægara að með komu skipanna á leið til Evrópu styttist heildar-flutningstími frá framleiðanda í byggðum nær útskipunarhöfn til markaða og bætir því stöðu þeirra sem selja unna vöru, – gegn pöntunum eða í ferskvöru. 

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um stóriðju á Húsavík verður til flutningaþörf sem væntanlega verður mætt með beinum skipasiglingum að utan. Verður að teljast líklegt að félögin sendi skip sín frá Reykjavík norður um til Húsavíkur og væntanlega áfram til Reyðarfjarðar á leið til meginlandsins.

Húsavík gæti þá orðið meginútflutningshöfn fjórðungsins; með Vaðlaheiðargöngum er fjarlægðin inn til Akureyrar 75 km. 

Fari skipin frá Reykjavík norður um til meginlandsins liggur beint við að koma við á Ísafirði, þar sem siglingin lengist aðeins um 21 sjómílu. Það byggist náttúrulega á því að skip af þeirri stærð geti lagst að bryggju í nær öllum veðrum þar. Með göngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar getur höfnin á Ísafirði þjónað útflutningi allra byggða á Vestfjörðum allt árið um kring sem mun leiða til umtalsverðs sparnaðar á akstri til Reykjavíkur.

Ljóst er að þessar siglingar taka aðeins minnihluta þeirra vöruflutninga sem fara um vegina, hins vegar munu þyngstu farmarnir sem núna slíta vegunum mest einna helst fara í skip. Því verður minnkun slits mun meiri en nemur fjölda ferða, en eftir verða flutningar á neysluvörum sem vegna pakkninga og magns pakka og pappírsvöru leiðir til minni heildarþunga og minni öxulþunga. 

Ekki er loku fyrir skotið að einhverjir innanlandsflutningar fari með skipum, sérstaklega þyngri farmar, ef vegayfirvöld taka upp frekari skattlagningu miðað við öxulþunga í framtíðinni. Það væri í góðu samræmi við slit á vegum, það eru margfeldisáhrif hvað aukinn öxulþungi veldur mun meira sliti. Lækkun vörugjalda í höfnum út á strönd mundi gera þann valkost meira aðlaðandi. 

Þessar siglingar munu hafa mun róttækari áhrifa á afkomu landsbyggðarinnar en einhver endurvakning strandflutninga fortíðarinnar, þar sem vöru verður ekki umskipað og hefur mun skemmri flutningstíma til og frá helstu mörkuðum en nú tíðkast fyrir Norðurland og Vestfirði. Flutningur um Fjarðabyggðarhafnir hefur þegar sannað sig.

Því má segja að koma stóriðju á Reyðarfirði og Húsavík verði sú lyftistöng sem muni hafa mjög jákvæð áhrif á afkomumöguleika annarra atvinnugreina utan höfuðborgarsvæðisins.

Höfundur er flutningahagfræðingur.

 

8 árum seinna;

Af álveri á Bakka verður ekki í bráð að minnsta kosti. Þar var stefnt að 346,000 tonna útflutningi á ári um 7,000 tonna útflutningu á viku, 250 TEUs.

Nú er stefnt að 33-66,000 tonna kísilverksmiðju = 32 – 64 TEU´s á viku sem ætlað er að hefji framleiðslu árið 2017.

Skipafélögin tóku að hluta upp þá hugmynd sem lýst er í greininni að ofan, en af einhverri ástæðu eru einungis með ferðir aðra hverja viku, frekar óreglulega og bæði sömu vikuna. Það þýðir að þessar ferðir geta ekki verið liður í reglulegum útflutningi á neytenda markað sem almennt er talið að þurfi að minnsta kosti vikulegar siglingar. Því mun enn um sinn vera verulegir landflutningar með útflutningsafurðir til Reykjavíkur. Því er ekki líkleg fjárfesting í framleiðslutækjum til að vinna fisk í neytendapakkingingar og nýta hinn stutta flutningstíma sem vikulegar afskipanir, sérstaklega frá Reyðarfirði bjóða upp á. Ég tel ólíklegt að hálfsmánaðar þjónusta við ströndina taki mikinn flutning af vegunum.

- Athugasemd rituð 8 desember 2014